Verk Samúels

Öll verk Samúels bera honum fagurt vitni og var hann víða þekktur fyrir hæfileika sína sem hann átti í ríkum mæli. Hans er þó hvergi getið í ritum um íslenska listasögu. Þó gerðu margir sér leið út í Selárdalinn til að líta eigin augum verk Samúels sem voru þar til sýnis eins og hver önnur fullgild listaverk. Samúel málaði fjölmörg olíumálverk og landslagsmyndir sem hann rammaði inn sjálfur. Hann gerði sér högglistagarð, skar út í tré og gerði einnig líkön, m.a. af Péturskirkjunni í Róm og af indversku musteri. Þessi líkön voru listavel gerð úr hundruðum ef ekki þúsundum smáhluta og duldist engum að bak við þessi líkön voru margar vinnustundir, þolinmæði og djúpstæð sköpunargleði. Samúel gerði hinsvegar ekki víðreist um dagana. Til annara landa hafði hann aldrei komið en studdist við myndir úr bókum og póstkort við listsköpun sína.

Þegar kirkjan í Selárdal fagnaði 100 ára afmæli málaði Samúel altaristöflu sem hann hugðist gefa kirkjunni. Önnur altaristafla var þar fyrir og hafnaði sóknarnefndin gjöf Samúels honum til sárra vonbrigða. Hann lét þó ekki hugfallast og reisti af eigin rammleik kirkju sem hýsa skyldi altaristöfluna. Kirkjan var steypt upp af mikilli útsjónarsemi og í þrepum því Samúel hafði aðeins eitt sett af mótatimbri og gat því aðeins steypt upp sem svaraði einni fjöl í einu. Mölina í steypuna sótti hann niður í fjöru og bar á bakinu (lyft á eins manns herðum) og sementið sótti hann á Bíldudal.