Samúel Jónsson var fæddur 1884 og lést 1969. Hann var bóndi á Brautarholti í Selárdal í Ketildalahreppi í Arnarfirði. Hann er einn þekktasti alþýðulistamaður sem Ísland hefur alið − þó ekki hafi verið fjallað um hann að neinu ráði í bókum um myndlist. Samúel var sjálflærður í listinni, en sem ungur maður teiknaði hann talsvert og málaði með vatnslit og olíulit. Listaferill hans hófst þó ekki fyrir alvöru fyrr en hann hafði efni á að kaupa sement fyrir ellilífeyrinn í þeim tilgangi að reisa listasafn og höggmyndagarð og svo bættist kirkja við, með býsönskum turni sem hann byggði einn síns liðs, kominn hátt á áttræðisaldur.
Þá kom vel í ljós að Samúel var mikill verkfræðingur í sér. Kirkjuna reisti Samúel þegar sóknarnefndin vildi ekki þiggja altaristöflu sem hann hafði málað fyrir Selárdalskirkju.
Í þessari bók er fjallað um líf og list Samúels og birtar myndir af verkum hans sem flest eru í einkaeigu, en mörg hafa glatast. Einnig eru birtar myndir sem sýna Samúel á síðustu árum hans á Brautarholti og myndir af listasafninu eftir lát hans. Jafnframt segir hér af endurreisnarstarfinu frá því Félag um endurreisn listasafns Samúels var stofnað 1998. Ólafur J. Engilbertsson er ritstjóri bókarinnar. Gerhard König skrifar um sýn og aðferðir Samúels og ásamt Kára G. Schram skrifa þeir um endurreisnarstarfið.
Bókin er 160 blaðsíður að stærð, innbundin og í stóru broti. Hún fæst í helstu bókaverslunum og hjá útgefendum, Listasafni Samúels og Sögumiðlun.
Umsagnir
Það eru engar umsagnir enn.